Berglind Björgvinsdóttir (f. 1990) er myndlistarkona sem fæddist og ólst upp í Garðabæ en hefur verið búsett á Selfossi frá árinu 2019. Hún er alin upp við listsköpun – móðir hennar er myndlistarkona – og kviknaði áhuginn snemma. Sköpunin hefur ætíð verið henni eðlislæg og mikil gleði felst í því að mála og skapa með mismunandi aðferðum og efnum.
Berglind stundaði nám í Myndlistarskóla Kópavogs í æsku og hefur síðan sótt fjölmörg námskeið í margvíslegum greinum myndlistar, svo sem vatnslitun, olíumálun, akrýl, módelteiknun og abstraktlist. Hún leggur áherslu á sífellda endurmenntun og telur mikilvægt að rækta sköpun með nýrri þekkingu og þjálfun, jafnt innanlands sem utan – meðal annars í gegnum netnámskeið frá erlendum listamönnum.
Verkin hennar endurspegla fjölbreyttan efnivið; hún vinnur helst með vatnsliti, akrýl og olíu, en notar oft blandaðar aðferðir. Innblásturinn sækir hún í náttúruna, mannlífið og þær djúpu tilfinningar sem fylgja daglegu lífi og tengingum.
Berglind er virkur félagsmaður í Vatnslitafélagi Íslands, Litku auk þess sem hún gegnir nú hlutverki formanns Myndlistarfélags Árnessýslu (MFÁ), þar sem hún vinnur ötullega að því að efla grasrótarstarf, listviðburði og tengslamyndun meðal listafólks á Suðurlandi.
Hún hefur tekið þátt í samsýningum og haldið einkasýningar, og stefnir nú að nýrri einkasýningu sem opnar haustið 2025.
Listaverk og upplýsingar má finna á heimasíðunni www.bbart.is og á samfélagsmiðlum undir listamerkinu BBart, þar sem fylgjast má með sköpun hennar, verkefnum og listrænni þróun.







