Myndlistarfélag Árnessýslu bauð nýverið félagsmönnum í Vatnslitafélagi Íslands í heimboð á vinnustofuna í Sandvíkursetri. Þar átti sér stað einstaklega ánægjuleg samverustund þar sem málað var saman, spjallað og notið ljúffengra kræsingar sem slógu heldur betur í gegn. Sérstakar þakkir fá Hjördís, Kristjana, Berglind Ragna og formaðurinn fyrir veitingarnar sem vöktu mikla lukku.
Alls mættu 35 manns til að vatnslita saman, um það bil helmingur frá hvoru félagi. Á meðan gestir og heimamenn nutu matarins spruttu fram fjölbreytt verk á pappír. Þar mátti sjá dýr, landslag, abstraktform, blóm, ljúffenga snúða og ýmislegt fleira. Andrúmsloftið var létt og skapandi, og fyrir félagsmenn Myndlistarfélagsins var sérstaklega ánægjulegt að sýna hina glæsilegu aðstöðu félagsins. Það kom skýrt fram að gestirnir voru mjög hrifnir og gaman var að fá jafnvel gest frá Akureyri sem lagði leið sína suður að mála með okkur.
Vatnslitun er sérstök listgrein sem krefst bæði þolinmæði og tækni, en um leið býður hún upp á frelsi og léttleika. Vatnslitir hafa þann einstaka eiginleika að þeir renna saman, skapa óvænt mynstur og gefa verkum líf og dýpt sem erfitt er að ná með öðrum miðlum. Það er alltaf kúnst að fanga augnablikið í vatnslitum og jafnframt ótrúlega skemmtilegt.
Vatnslitafélag Íslands er öflugur vettvangur listafólks sem vinnur með vatnsliti, með það að markmiði að efla þessa listgrein, skapa tengsl milli listamanna og gefa þeim rými til að þróast og deila reynslu. Það er bæði heiður og ánægja fyrir Myndlistarfélag Árnessýslu að eiga í samstarfi við félagið og vonandi verður slíkt samstarf enn meira áberandi í framtíðinni.
Við þökkum kærlega fyrir frábæran dag, góða samveru og innblástur sem fylgir því að hittast, mála og læra hvert af öðru.
Hlökkum til að sjá hvað verður framundan, þangað til næst!
































