Þvílíkt skemmtilegir dagar eru að baki hjá Myndlistarfélaginu! Á fimmtudagskvöld fór fram fyrsta Herrakvöld félagsins, sem vakti mikla lukku og skapaði einstaka stemningu. Þátttakendur nutu þess að mála, teikna og spjalla í glaðlegu og afslöppuðu andrúmslofti.
Um helgina var svo opið hús í Sandvíkursetri, þar sem gestir gátu komið við, notið kaffibolla og skoðað sýninguna Sköpunarverk í Gallerí Gangi. Margir gerðu sér ferð til okkar, nutu listarinnar, spjölluðu við listafólkið og styrktu það með kaupum á fallegum verkum og munum úr sölugalleríinu. Stemningin var notaleg og hlý, sönn menningarstund bæði laugardag og sunnudag.
Í vikunni sem fram undan er verður nóg um að vera. Á mánudag fer fram samverustund foreldra og barna, þar sem unnið verður með hugtakið sjálfsmynd í list. Börn og fullorðnir á öllum aldri eru velkomin að taka þátt, teikna, mála, lita og njóta skapandi samveru. Opið verður frá kl. 15:00–18:00 og allur efniviður verður á staðnum.
Einnig kíkti félagið nýverið í heimsókn til myndlistarnemenda í FSU, og var það ótrúlega ánægjuleg og hvetjandi upplifun. Það var sannarlega gaman að sjá hvað næsta kynslóð listamanna er kraftmikil, hugmyndarík og metnaðarfull.
Í tengslum við það verður Ungmennakvöld fimmtudaginn 16. október kl. 20:00–22:00 á vinnustofu félagsins í Sandvíkursetri. Þar fá allir á aldrinum 18–25 ára tækifæri til að nýta rýmið, skapa og kynnast öðru ungu listafólki. Ekki missa af þessari skemmtilegu og hvetjandi stund, við hlökkum til að sjá ykkur!
Við hvetjum alla til að fylgjast með fjölbreyttri dagskrá Myndlistarfélags Árnessýslu í tilefni Menningarmánaðar Árborgar í október. Það er okkur sönn ánægja að taka þátt í menningarlífi sveitarfélagsins, efla samfélagið í gegnum listina og skapa vettvang þar sem allir geta notið sköpunar, samveru og innblásturs.









