Vatnslitafélag Íslands bauð á sýnikennslu Jorge Corpuna

Vatnslitafélag Íslands bauð á sýnikennslu Jorge Corpuna


Vatnslitafélag Íslands bauð félagsmönnum Myndlistarfélags Árnessýslu á einstaka sýnikennslu hjá hinum heimsþekkta vatnslitamálara Jorge Corpuna, sem kom hingað til lands til að halda námskeið á vegum Ragnars Hólms. Ellefu félagsmenn MFÁ mættu til að fylgjast með, en margir þeirra eru einnig skráðir í Vatnslitafélagi Íslands.

Jorge Corpuna er aðeins 32 ára gamall en þegar orðinn einn fremsti vatnslitamálari Perú. Hann hefur hlotið fjölda alþjóðlegra viðurkenninga fyrir list sína og kennt á námskeiðum víða um heim. Stíll hans einkennist af kraftmikilli túlkun náttúrunnar þar sem hann vinnur með ljós og skugga á einstaklega lifandi hátt. Hér á landi heldur hann þrjú námskeið og miðlar ríkri þekkingu sinni á aðferðum sem heilla bæði byrjendur og lengra komna.

Með honum í ferðinni var Angela, spænskur vatnslitamálari sem nýtur mikillar virðingar í alþjóðlegum listheimi.

Á sýnikennslunni deildi Jorge fjölmörgum ráðum og aðferðum sem heilluðu áhorfendur. Hann sýndi hvernig hægt er að skapa dýpt og stemningu með því að vinna frá ljósu til dökks, nota hlýja tóna á nærmyndir og kaldari tóna í fjarlægð. Hann lagði áherslu á mikilvægi smáatriða – þau geta gert myndina lifandi, en jafnframt skemmt hana ef þau eru ofnotuð.

Hann kynnti m.a. Daniel Smith vatnslitina sem hann vinnur með, og notkun fjölbreyttra pensla, þar á meðal „goat brushes“ og kínverskra pensla. Með „wet on wet“ aðferðinni bleytir hann pappírinn eftir teikningu til að ná mjúkum og náttúrulegum flæðum í litunum. Hann útskýrði hvernig hann notar indigo og sepia í dekkstu skuggana, appelsínugulan og permillian til að skapa hlýja tóna, og hvernig blautir steinar fá kaldari tón því þeir endurkasta lit himinsins.

Áhorfendur fylgdust með honum umbreyta einföldum formum í kraftmikla náttúrulíkingu þar sem himinn, vatn og steinar fengu líf með litum og smáatriðum. Hann sýndi jafnvel hvernig hægt er að nota fingurneglurnar til að skapa sérstök form og dýpt í litina.

Við í Myndlistarfélagi Árnessýslu stefnum á að bjóða Vatnslitafélagi Íslands yfir heiðina fögru, á vinnustofu okkar, þar sem við getum málað saman og lært hvert af öðru. Það er margt spennandi framundan og hvetjum við áhugasama að fylgjast vel með tilkynningum.

Back to blog